Örn Arnarson / Magnús Stefánsson

Magnús Stefánsson fæddist að Kverkártungu á Langanesi í Norður-Múlasýslu 12. desember árið 1884. Foreldrar hans, Ingveldur Sigurðardóttir og Stefán Árnason, stunduðu búskap þar. Var Magnús sjöunda barn þeirra hjóna, en áður höfðu þau átt fimm dætur sem allar komust á legg og son sem lést á fyrsta ári.
Eins og víða á þeim tíma bjuggu foreldrar Magnúsar við þröngan kost. Upp úr 1880 voru almennt mikil harðindi á Íslandi vegna erfiðs tíðarfars og annars. Þegar Magnús var á þriðja ári (1887) gáfust foreldrar hans upp á búskapnum fluttu að Miðfirði og gerðust vinnuhjú. Ekki gátu þau tekið öll börnin með sér í vistina og var dætrunum komið fyrir, en þau höfðu Magnús með sér.
Skömmu síðar reið ógæfa yfir þegar Stefán faðir Magnúsar drukknaði. Í kjölfarið flutti hann ásamt móður sinni að Þorvaldsstöðum í sömu sveit. Ólst Magnús þar upp við öll almenn sveitastörf, en þótti þó heldur lítill bógur til vinnu.
Ekki gekk hann í neinn fastan skóla á þessum árum, en veturinn 1906 hóf hann nám í unglingaskólanum sem þá var starfræktur á Grund í Eyjafirði. Árið eftir var hann kominn suður og nam við Flensborgarskóla, þaðan sem hann lauk gagnfræðaprófi. Árið 1909 lauk hann svo kennaraprófi úr Kennarskólanum. Með nýfengið próf upp á vasann hóf Magnús að kenna í sinni heimabyggð, en ekki virðist honum hafa líkað kennslan því sá vetur varð einnig hans eini vetur í kennslu.
Magnús fluttist til Vestmannaeyja árið 1910 og starfaði þar lengst af sem sýsluskrifari eða allt til 1918 þegar hann fluttist til Hafnarfjarðar og bjó þar alla tíð síðan. Starfaði hann einkum við almenn skrifstofustörf, en meðfram því vann hann stundum einhverja verkamannavinnu, og þá hélt hann nokkrum sinnum í síld bæði til Akureyrar og Siglufjarðar.
Árið 1935 fékk hann fyrir hjartað og vann enga almenna vinnu eftir það. Það kom sér því vel er hann fékk skáldastyrk ári síðar sem hann hélt út ævina. Síðust árin voru Magnúsi nokkuð erfið og var hann oft rúmfastur um lengri tíma. Magnús kvæntist aldrei og átti engin börn. Hann lést í Sánkti Jósefsspítala 25. júlí 1942.
- - -
Eins og segir í stuttu æviágripi Magnúsar sem Bjarni Aðalbjarnarson skrifaði með þriðju útgáfu ljóðabókar Magnúsar, Illgresi, var það venja á Þorvaldsstöðum að lesa upp sögur og rímur í tvo tíma á hverju kvöldi. Er ekki nokkur vafi á því að það hefur haft mikil áhrif á drenginn og átt sinn þátt í að gera úr honum skáld. Og það er einmitt það sem Magnús var fyrst og síðast; hann var skáld. Og þó svo að hann standi nokkuð utan við almennar skáldagötur hér á landi finnur maður samsvörun með honum og mönnum eins og Bólu-Hjálmari og KN.
Bar snemma á hæfileikum Magnúsar. Hann var farinn að yrkja ljóð í eyru móður sinnar fyrir tíu ára aldur og stoppaði aldrei eftir það. Það er þó fyrst árið 1920 að hann sendir ljóð til blaðsins Eimreiðarinnar. Var þeim ljóðum firna vel tekið og Ársæll Árnason útgefandi blaðsins bauðst í kjölfarið til að gefa út eftir hann ljóðabók. Þótti Magnúsi sérstaklega gaman að fá greitt fyrir þessi ljóð. Það varð svo úr að ljóðabók, Illgresi, var gefin út árið 1924.
Fékk bókin ágæta dóma og seldist upp á skömmum tíma. Eins og í Eimreiðinni kvittaði Magnús ekki fyrir ljóðin með eign nafni heldur dulnefninu Örn Arnarson. Ekki er vitað af hverju hann kaus að gera það, en eflaust hefur honum þótt erfitt að leggja Magnús Stefánsson í dóm allra; að bera sál sína milliliðalaust fyrir hverjum sem var.
Ljóðasafn Magnúsar er ekki stórt að vöxtum, en magn hefur heldur ekkert með gæði að gera. Ljóð hans eru mjög persónuleg; stundum opnar sig gjarnan alveg inn að kviku og má vera að það skýri að hluta af hverju hann notaði dulnefni. Ljóð Magnúsar eru líka mjög fjölbreytt og engin leið að ætla að fella hann undir einhverja ákveðna stefnu. Í gegnum ljóðin skynjar maður Magnús Stefánsson sem flókinn persónuleika en þó heilsteyptan mann sem er ekki í neinum skáldaleik eins og margir kollegar hans, heldur yrkir af innri þörf og af því að ljóðið býrt í honum. Þekktustu ljóð Magnúsar eru eflaust Stjáni blái og Íslands Hrafnistumenn, en síðara ljóðið varð innblásturinn að Hrafnistu, dvalarheimili aldraðra sjómanna. Annars er ljóðasafn Magnúsar mjög heilsteypt og má einu gilda hvar gripið er niður í það. Það er svo jafngott.